Þunglyndi hefur áhrif á milljónir manna um allan heim. Stundum er þessu líkt við heimsfaraldur. Samkvæmt Alþjóða Heilbrigðisstofnuninni (WHO) er talið að þunglyndi herji á um 260 milljónir manna í öllum heimsálfum og sé ekki aðeins heilbrigðisvandamál heldur hafi ýmsar afleiddar afleiðingar. Þunglyndi hafi neikvæð samfélagsleg og efnahagsleg áhrif. Það hafi ekki aðeins áhrif á daglega virkni heldur hafi þunglyndi einnig áhrif á mannleg samskipti og almenna heilsu með því að auka hættuna á langvinnum líkamlegum og andlegum sjúkdómum.
Kreatín er það fæðubótarefni, sem hefur verið hvað mest rannsakað og er í dag viðurkennt fyrir að auka líkamlega orku. Kreatín eykur orkuna með því að hafa áhrif framleiðslu líkamans á ATP (adenósínþrífosfat). ATP er nokkurs konar orkubanki frumnanna. Þegar orka losnar í frumu er hún nýtt til að mynda ATP, þ.e.a.s. orka er lögð inn í ATP. Þar geymist hún þar til fruman þarf á orku að halda.
Nú hefur hins vegar komið í ljós að kreatín getur einnig nýst í baráttunni við þunglyndi.
Nýlega hefur verið sýnt fram á möguleika kreatínuppbótar sem viðbótarmeðferð við þunglyndi. Áhrif kreatíns til að auka orkuefnaskipti í heila og veita taugavörn bendir til þess að það geti dregið úr geðröskunum. Kreatín getur þannig bætt starfsemi hvatbera, aukið seiglu frumna og haft áhrif á taugaboðefnakerfi sem stjórna skapi.
Vísindamenn víða um heim hafa rannsakað þetta og þ. á m. vísindamenn frá háskólanum í Utah. Þeir hafa yfirfarið ýmsar nýlegar rannsóknir til að meta hvort að kreatínuppbót geti haft áhrif á þunglyndi. Þeir skoðuðu ýmsar rannsóknir, þ. á m. taugamyndatökur, erfðafræðirannsóknir, faraldsfræðirannsóknir og ýmsar rannsóknir sem gerðar hafa verið á dýrum, sem allar bentu til truflana á orkuefnaskiptum heilans sem orsök þunglyndis. Síðan var skoðað hvort að kreatín gæti unnið gegn þessum truflunum.
Niðurstöður þeirra benda til þess að kreatínuppbót geti verið áhrifarík viðbótarmeðferð fyrir einstaklinga með þunglyndi og þá ásamt öðrum aðferðum eins og samtalsmeðferð og lyfjum. Þetta gæti verið sérstaklega mikilvægt fyrir þá sem bregðast ekki að fullu við hefðbundinni meðferð.
Með því vinna út frá orkuefnaskiptum heilans þá virðist kreatín sem fæðubót vinna gegn þunglyndi. Hins vegar tóku vísindamennirnir fram, að mikilvægt er að skoða niðurstöðurnar með varkárni og hvetja þeir jafnframt til frekari rannsókna á þessu sviði. Með auknum rannsóknum sé hægt að ákvarða hentuga skammta til þess að ná fram sem mestum árangri og tryggja langtímaöryggi. Ýmsar aðrar rannsóknir benda til sömu niðurstöðu, skv. National Library of Medicine (NIH).
Einstaklingar sem íhuga kreatín við þunglyndi ættu þannig alltaf að ráðfæra sig við lækni áður en kreatín inntaka hefst sem meðferðarúrræði.
Í stuttu máli má segja, að kreatín, sem almennt er þekkt fyrir að auka líkamlega frammistöðu, sé hugsanlegur bandamaður í geðheilbrigðisþjónustu.